Af hverju plastleysi?

Sífellt dynja á okkur fréttir um ógnina sem stafar af plastnotkun, og þeirri hættu sem vistkerfi sjávar stafar af allskonar plasti. Íslendingar eru sífellt að verða meðvitaðri um endurvinnslu og mörg bæjarfélög vinna að því hörðum höndum að auka flokkun sorps meðal sinna íbúa. Slíkt hefur vissulega gefið góða raun, en að endurvinna er ekki nóg, heldur verðum við að reyna eftir fremsta megni að reyna að minnka alla plastnotkun.

Plast hverfur ekki, heldur brotnar aðeins niður í náttúrunni í smærri einingar. Þetta örplast endar gjarnan í hafinu þar sem sjávardýr ruglast jafnvel á því og fæðu. Þar með kemst plast inn í fæðuhringinn.

Við erum ekki á þeirri skoðun að við þurfum endilega að losa okkur við allt plast umsvifalaust. Allt það plast sem maður á, á maður að nota eins og mögulegt er. Það sem við þurfum aftur á móti að einbeita okkur að er að sneiða hjá öllu einnota plasti, og kaupa þá frekar vandaðar vörur sem endast lengur.

Hvert skref skiptir máli; gott er að byrja á því að taka út plastinnkaupapoka. Svo má hætta að nota plastfilmu (og álpappírinn jafnvel í leiðinni). Kaupa frekar vörur í stærri einingum, eða velja þær sem eru í minni umbúðum. Afþakka rör í drykkinn, taka með sér fjölnota kaffibolla, taka ekki meira en maður þarf af tómatsósu á skyndibitastaðnum.

Hver poki skiptir máli – og það er löngu sannað að enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað!